Artíma - Félag listfræðinema við Háskóla Íslands

laugardagur, nóvember 11, 2006

Listasafn ASÍ

MÁLVERKAINNSETNING/ÞRÁÐLAUS TENGING




Laugardaginn 11. Nóvember kl. 15.00 verða opnaðar þrjár sýningar í
Listasafni ASÍ.





Kristinn Már Pálmason sýnir í Ásmundarsal

MÁLVERKAINNSETNING.



Sýning Kristins er stór málverkainnsetning sem byggð er á samþættingu ólíkra
aðferða og merkingafræðilegra þátta í tungumáli málverksins.



Innsetningin samanstendur efnislega m.a. af mannshári, áli, ljósi, speglum,
olíulit og krossvið og er unnin sérstaklega inn í rými Ásmundarsalar.



Kristinn Már hefur undanfarin ár gert margvíslegar tilraunir í málverki og
unnið jöfnum höndum að þróun myndmáls og aðferða innan ramma hins hefðbundna
tvivíða flatar og útvíkkun málverks í tíma, efnis, og rýmistengdu samhengi.



Kristinn Már (f. 1967) útskrifaðist úr Myndlista og handíðaskóla Íslands
1994 og er með MFA gráðu síðan 1998 frá The Slade School of Fine Art,
University College London.

www.krimp@krimpart.com







Kristín Helga Káradóttir sýnir í Gryfju

ÞRÁÐLAUS TENGING.



Kristín Helga Káradóttir sýnir myndbands-sviðsetningu í Gryfju Listasafns
ASÍ. Um er að ræða stuttar sviðsettar myndir þar sem listakonan sjálf kemur
fram. Þessum myndskeiðum er varpað upp í sýningar-rýminu sem hefur verið
klætt í búning sem rammar myndböndin inn. Þannig fléttar listakonan saman
myndbönd og rými. Sviðsetningin nýtur liðsinnis tónlistarmannsins Bjarna
Guðmanns Jónssonar við að undirstrika stemmninguna.



Mörg fyrri myndbönd Kristínar Helgu fjalla um tilvistina á einn eða annan
hátt. Þessi myndbönd lýsa líðan eða aðstæðum sem áhorfandanum gefst kostur á
að upplifa á sinn hátt. Kristín Helga skipuleggur sjaldnast myndbönd sín
fyrirfram heldur lætur þau ráðast í vinnuferlinu. Hún vinnur út frá
tilfinningunni og notar orðlausa leikræna tjáningu.



Kristín Helga (f.1968) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2004 með
viðkomu í Listakademíunni í Kaupmannahöfn sem skiptinemi. Áður hafði hún
lokið myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti auk ýmiskonar
myndlistar-, dans- og leiklistarnámskeiðum.



Listamannaspjall
Listamennirnir kynna verk sín og spjalla við gesti



Sunnudaginn 19. nóvember kl. 15.00 Kristinn Már

Sunnudaginn 26. nóvember kl. 15.00 Kristín Helga



Óhlutbundin verk í eigu Listasafns ASÍ verða sýnd í Arinstofu



Sýningarnar standa til 3. desember

Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13.00 - 17.00

Aðgangur er ókeypis.



Listasafn ASÍ

Freyjugata 41

101 Reykjavík

Sími 511-5353

Listasi@centrum.is



0 Athugasemdir:

Skrifa ummæli

<< Home